Erum með úrval af fallegum nýjum mottum

UM ENZA OG SAMSTARFIÐ VIÐ NORZA LIVING

UM ENZA OG SAMSTARFIÐ VIÐ NORZA LIVING

 

 

ENZA Empowering Women
Íslensk/suður-afrísku hjálparsamtökin Enza empowering women voru stofnuð af Ruth Gylfadóttur árið 2008. Fyrstu árin fóru starfsemi samtakanna  fram í Mbkweni fátækrahverfinu, 50 km norður af Höfðaborg í Suður Afríku. Nafn samtakanna; "Enza", hefur jákvæða tilvísun og merkir að framkvæma eða gera á Zulu og Xhosa, sem er móðurmál meirihluta landsmanna. Enza er NGO og NPO og hefur haft starfandi stjórnir á Íslandi, í Suður-Afríku og í Bretlandi. 

Markmið Enza:
Frá fyrsta degi var markmið samtakanna að beina konum í fátækrahverfum Suður-Afríku, sem búa við takmarkaða möguleika, á braut sjálfsbjargar og félags- og fjárhagslegs sjálfstæðis með jafnréttissjónarmið og aukna valdeflingu að leiðarljósi.
Enza hefur ekki leitast við að breyta samfélaginu sem konurnar búa í, heldur hafa samtökinn alltaf beitt sér fyrir því að fá Enza konur til að spyrja sig hvernig þær geti breytt eigin lífi við þær aðstæður sem þær búa við.

Enza rak um árabil fræðslumiðstöð og fjölsmiðju fyrir konur í Mbekweni/Newrest fátækrahverfinu í útjaðri Höfðaborgar. Þar fór fram atvinnuskapandi uppbyggingarstarf fyrir konur og stúlkur sem vegna fátæktar og annarra samfélagsmeina höfðu ekki fengið tækifæri til að þroska sig og mennta.

Upphaflegur kjarnahópur samtakanna voru konur sem hafa neyðst til að gefa frá sér barn til ættleiðingar vegna sárrar fátæktar.

Árið 2019 sameinaðist Enza helstu samstarfssamtökum sínum, TCB sem er stytting fyrir The Clothing Bank

Nú árið 2021 þjónar Enza undir merkjum TCB konum í 5 stærstu borgum Suður-Afríku. Þetta eru konur sem búa við háa glæpatíðni, gríðarlega fátækt, atvinnuleysi og landlæga sjúkdóma á borð við HIV og berkla, en vilja fræðast og auka tækifæri sín til innihaldsríkara lífs og bættra lífskilyrða.

Hjá samtökunum fer fram starfsmenntun sem miðar að því að veita konum brautargengi í rekstri smáfyrirtækja. Starfsmenntun þessi felur meðal annars í sér fjármálalæsiskennslu, tölvukennslu og lífsleikni, kennslu á saumavélar svo eitthvað sé nefnt.

Samfélagsarmur Norza living á Íslandi

Norza living www.norza.is stuðlar að atvinnuskapandi verkefnum sem leiða til sjálfbærni Enza kvenna. Fyrir tilstuðlan Norza, eru margir skjólstæðingar Enza orðnar fyrirmynd annarra kvenna í samfélagi sínu sem sáttir og nýtir þjóðfélagsþegnar, með því að sjá sér og sínum farborða af eigin verðleikum.

Tilgangur samfélagsarms vefverslunarinnar er að veita þeim konum sem stunda, eða lokið hafa námi hjá Enza brautargengi í rekstri eigin smáfyrirtækja og afla verkefna fyrir þau.

Eitt af hlutverkum Norza living að fá hönnuði til samstarfs við Enza konur og leita leiða til kynningar og markaðsetningar á þeim vörum sem konurnar framleiða.

Raunárangur:

Hjálparsamtökin Enza hafa náð þeim undraverða árangri að minnka atvinnuleysi um allt að 46% á meðal þeirra kvenna sem sótt hafa sér aðstoð hjá samtökunum. Hluti kvennanna stofnaði og rekur nú sín eigin smáfyrirtæki með góðum árangri. 

 http://theclothingbank.org.za